Mig langar að segja frá hvíta fallega hestinum sem er fremst á vefsíðunni og hvað hann táknar fyrir mig. Myndin af honum er gullfalleg, en fyrir mér er hann svo miklu meira en það.
Mig dreymir mikið og ég hef skrásett draumana mína í næstum tuttugu ár. Þeir hafa ekki alltaf haft þýðingu fyrir mig þegar þeir komu, en með tímanum hefur mér lærst að skilja þá betur. Undirvitundin opnast mér í gegnum drauma og hún tjáir sig í gegnum tákn, fólk, dýr, staði og tilfinningar sem ég hef lært að þekkja sem hluta af mér sjálfri – stundum hluta sem ég viðurkenni ekki í vöku að tilheyri mér.
Þegar hvíti hesturinn sýndi sig fyrst í draumi, var ég á erfiðu tímabili í lífinu og fann ekki bjargráðin mín. Mig dreymdi hann ítrekað – veikan, haltan, hlekkjaðan, vanræktan eða týndan – oft fann ég mikið til með honum og var að reyna að hjálpa honum, en stundum var það ég sjálf sem var að kvelja hann.
Smám saman birti til í vökunni og ég fann aftur kraftinn minn og gleðina. Hesturinn hvarf úr draumum mínum um margra ára bil og það var ekki fyrr en nýlega sem hann birtist mér aftur – í þetta sinn í hugleiðslu. Stór, skjannahvítur og glansandi, ólgandi af krafti og leik – heill og heilbrigður. Hann hristi sig allan og frísaði og það fylgdi honum sterk frelsistilfinning.
Hvíti hesturinn er hluti af mér. Hann er styrkurinn, seiglan og sá sem horfir í ljósið. Hann er líka sá sem hefur verið haltur, hlekkjaður og vanræktur – en var þó alltaf heill og frjáls.
Hann er sá hluti af mér sem hefur kjarkinn til að trúa því að ég hafi eitthvað að bjóða sem getur orðið öðrum styrkur. Mér finnst hann fallegt tákn fyrir þá þjónustu sem ég vil bjóða – heilun og sálgæslu.
Comments